Tilkynningar hafa borist Veðurstofunni um að jarðskjálfti af stærðinni þrír hafi fundist í Hafnarfirði skömmu fyrir klukkan ellefu í kvöld. Skjálftinn átti upptök sín við Kleifarvatn á Reykjanesskaga.
Á vef Veðurstofunnar kemur fram að skjálftinn hafi riðið yfir klukkan 22:53. Upptök hans hafi verið um 6,1 kílómetri norðnorðaustur af Krýsuvík við Kleifarvatn.
Í síðustu viku greindust tæplega 2.900 jarðskjálftar með sjálfvirku mælakerfi Veðurstofunnar. Það eru mun fleiri en í vikunni á undan þegar um 1.300 skjálftar mældust. Yfir 2.100 jarðskjálftar mældust á Reykjanesskaga. Sá stærsti var 4,2 að stærð við Fagradalsfjall á Reykjanesi 26. ágúst.