Erlent

Laug því að hún væri svört þegar hún er í raun hvít

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Jessica Krug með bók sína Fugitive Modernities sem kom út fyrir tæpum tveimur árum. Myndina birti útgáfufélagið Duke University Press á Twitter-síðu sinni.
Jessica Krug með bók sína Fugitive Modernities sem kom út fyrir tæpum tveimur árum. Myndina birti útgáfufélagið Duke University Press á Twitter-síðu sinni.

Jessica Krug, dósent við George Washington-hásóla í Bandaríkjunum og aktívisti, hefur þóst vera svört um árabil en hún er í raun hvít kona frá Kansas City.

Fjallað er um málið á vef breska blaðsins Guardian og vísað í bloggfærslu á vefnum Medium sem merktur er Krug og talið er að hún hafi skrifað.

Í færslunni segir Krug að ferill hennar sé byggður á lygum. Hún sé í raun hvítur gyðingur frá Kansas en hafi látið sem hún væri svört og ætti rætur að rekja til Norður-Afríku og Karíbahafsins, meðal annars. Krug er dósent í sögu svartra í Bandaríkjunum.

Árið 2018 gaf Krug út bókina Fugitive Modernities og fékk til þess styrk frá ýmsum menningar- og rannsóknarstofnunum, meðal annars frá einni stofnun sem einbeitir sér sérstaklega að menningu svartra.

Í bloggfærslu sinni á Medium segir Krug frá því að hún átt orðið fyrir áföllum í æsku og að hún hafi glímt við andleg veikindi.

Veikindin geta hins vegar ekki afsakað gjörðir hennar þótt þau geti mögulega útskýrt hvers vegna hún hafi villt á sér heimildir og haldið því áfram eins lengi og raun ber vitni.

Krug segir þessa hegðun sína lifandi dæmi um ofbeldi og skopstælingar hvítra í garð svartra og sem halda áfram að nota og misnota menningu og sjálfsmynd svartra.

Í bloggfærslunni er ekki að finna neina útskýringu Krug á því hvers vegna hún segir nú sannleikann um það hver hún er í raun og veru.

Að því er fram kemur í frétt BBC eru stjórnendur George Washington-háskólans meðvitaðir um bloggfærsluna og segja málið í skoðun.

Mál Krug þykir minna mikið á mál Rachel Dolezal, hvíts aktívista, sem þóttist vera svört. Foreldrar hennar stigu fram árið 2015 og ljóstruðu því upp að dóttir þeirra væri hvít.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×