Rúm hálf milljón manna í Oregon í Bandaríkjunum hefur nú þurft að leggja á flótta undan gríðarlegum skógareldum í ríkinu. Eldarnir loga einnig í nágrannaríkjunum Kaliforníu og Washington.
Kate Brown ríkisstjóri Oregon segir óljóst hversu margir hafi látið lífið en staðfest er að fjórir hið minnsta hafi dáið í hamförunum. Eldarnir loga glatt vegna óvenju heitra vinda sem blása um svæðið og í Oregonríki loga nú tugir elda stjórnlaust. Aldrei hafa fleiri stjórnlausir gróðureldar logað í ríkinu á sama tíma.
Rúmlega hundrað eldar loga nú í tólf ríkjum á vesturströnd Bandaríkjanna. Að minnsta kosti tíu hafa látist í Kaliforníu og eignatjón er gífurlegt. Alls hafa rúmlega fjórar milljónir ekra brunnið, svæði á stærð við Wales.
Rúmlega þrettánhundruð konur úr kvennafangelsinu í Coffee Creek eru á meðal þeirra sem neyðst hafa til að flýja eldana í Oregon. Fangelsið er í grennd við tvo stóra bruna sem óttast er að séu að sameinast í einn gríðarstóran gróðureld. Þá eru tólf ára drengur og amma hans á meðal þeirra sem farist hafa í eldunum í Oregon.
Einn stærsti eldurinn, sem kallaður er Almeda-eldurinn, logar í grennd við landamæri Oregon að Kalíforníu. Grunur leikur á íkveikju í því tilfelli en að minnsta kosti tvö dauðsföll eru rakin til eldsins og hundruð húsa hafa orðið honum að bráð.