Arsenal hefur samþykkt kauptilboð Aston Villa í argentínska markvörðinn Emiliano Martinez.
Ku tilboðið hljóða upp á 16 milljónir punda með árangurstengdum greiðslum sem gætu farið með kaupverðið í 20 milljónir punda en Martinez mun gangast undir læknisskoðun í Birmingham um helgina.
Þessi 28 ára gamli markvörður hefur verið á mála hjá Arsenal síðan árið 2010 en lét fyrst að sér kveða í sumar þegar hann leysti meiddan Bernd Leno af hólmi á lokaspretti síðustu leiktíðar í ensku úrvalsdeildinni.
Má segja að kappinn hafi óvænt slegið í gegn og hjálpaði hann liðinu meðal annars að vinna enska bikarinn þar sem Martinez stóð á milli stanganna í undanúrslitum og úrslitaleik keppninnar.
Hann varði einnig mark liðsins í sigri á Liverpool í Góðgerðarskildinum á dögunum en var ekki í leikmannahópi Arsenal í fyrsta leik deildarinnar gegn Fulham í gær.