Innlent

„Það bara lék allt á reiðiskjálfi“

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Frá höfninni á Húsavík.
Frá höfninni á Húsavík. Vísir/Vilhelm

„Heldur betur,“ segir Guðmundur A. Hólmgeirsson, íbúi á Húsavík, aðspurður um það hvort hann hafi fundið jarðskjálftann sem reið yfir Húsavík og nágrenni skömmu fyrir klukkan þrjú í dag.

Jarðskjálftinn mældist 4,6 að stærð en upptök hans voru töluvert nær landi en fyrri skjálftar í jarðskjálftahrinunni sem hófst á svæðinu í sumar. Upptökin voru inn í Skjálfandaflóa, 6,8 kílómetrum suðaustur af Flatey eða um tuttugu kílómetrum frá Húsavík.

„Það bara lék allt á reiðiskjálfi,“ segir Guðmundur í samtali við Vísi. Guðmundur man tímanna tvenna en segist þó ekki muna eftir jafn hastarlegum skjálfta.

„Ég bý hérna í timburhúsi, tveggja hæða. Við vorum úti á verönd og þá kemur þessi hrikalegi skjálfti. Þetta var mjög áþreifanlegt,“ segir hann.

Guðmundur og fjölskylda hans eiga hús í Flatey og voru einmitt að koma þaðan fyrr í dag. Hann segist hafa verið út í eyju þegar fyrsti stóri jarðskjálftinn í hrinunni reið yfir fyrr í sumar, en að skjálftinn í dag hafi verið mun snarpari.

„Þetta var miklu hastarlegra.“

Skjálftinn fannst vel á Akureyri og víðar. Til að mynda hringdi íbúi á Dalvík inn á fréttastofu sem sagðist hafa þurft að halda í sjónvarpið á heimili sínu svo það myndi ekki hrynja í gólfið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×