Starfsmaður Veðurstofu Íslands greindist með Covid-19 seint síðastliðið föstudagskvöld. Þetta staðfesti Haukur Hauksson, samskiptastjóri Veðurstofunnar, í samtali við fréttastofu nú síðdegis.
Nokkrir starfsmenn stofnunarinnar sem höfðu umgengist viðkomandi hafa verið sendir í sóttkví eftir tilmælum rakningateymis almannavarnadeildar ríkislögreglustjóra og verða prófaðir fyrir veirunni næstkomandi þriðjudag.
Í samtali við fréttastofu vildi Haukur ekki greina frá fjölda þeirra starfsmanna sem eru í sóttkví, en sagði þó að málið yrði ekki til þess að raska þjónustu Veðurstofunnar. Um er að ræða fyrsta smitið sem greinist í starfsmannahópi stofnunarinnar.
„Við erum með viðbragðsáætlanir gegn svona farsóttum, ekkert endilega bara Covid, í okkar áætlunum til þess að vernda þjónustuna. Við erum bara að vinna eftir því og það gengur vel,“ segir Haukur.