Maðurinn sem lést í vinnuslysi á Hellissandi í gær varð undir bifreið sem hann var að vinna við á bifreiðaverkstæði í bænum. Þetta kemur fram í tilkynningu frá lögreglu á Vesturlandi.
Tildrög slyssins eru til rannsóknar hjá lögreglu. Ekki er grunur um að neitt saknæmt hafi átt sér stað eða að aðrir hafi komið að slysinu með nokkrum hætti, að því er segir í tilkynningu.
Slysið varð á ellefta tímanum í gærmorgun og var þyrla Landhelgisgæslunnar kölluð út vegna þess. Þá fóru eftirlitsmenn Vinnueftirlitsins einnig á vettvang.