Alls eru nú 184 starfsmenn Landspítalans í sóttkví og 35 í einangrun, að því er fram kemur á vef spítalans. Starfsmönnum í sóttkví hefur fjölgað lítillega síðan í gær en fjöldi í einangrun helst sá sami.
Tveir sjúklingar með Covid-19 liggja nú inni á spítalanum og 437 eru í eftirliti Covid-göngudeildarinnar.
Í stuttri orðsendingu á vef spítalans kemur einnig fram að Landspítalinn sé á hættustigi vegna kórónuveirufaraldursins, eins og áður hefur verið greint frá. Viðbragðsstjórn og farsóttanefnd spítalans funda daglega.
„Allar ákvarðanir vegna sóttvarna og takmarkana þeim tengdar eru teknar á þeim miðlæga vettvangi og eru starfsmenn og stjórnendur hvattir til að kynna sér nýjustu ákvarðanir á degi hverjum á innri upplýsingavefjum spítalans,“ segir einnig í orðsendingunni.