Erlent

Mannfall í hernaðarátökum Asera og Armena

Kjartan Kjartansson skrifar
Mynd sem armenska varnarmálaráðuneytið sendi út sem á að sýna aserskan skriðdreka verða fyrir sprengikúlu við Nagorno-Karabakh.
Mynd sem armenska varnarmálaráðuneytið sendi út sem á að sýna aserskan skriðdreka verða fyrir sprengikúlu við Nagorno-Karabakh. AP/armenska varnarmálaráðuneytið

Bæði Aserar og Armenar segjast hafa orðið fyrir mannfalli í skærum ríkjanna um Nagorno-Karabakh, umdeilt og landlukt svæði innan Aserbaídsjan. Átökin eru sögð þau hörðustu frá því að sextán manns féllu í júlí.

Bæði ríki gera tilkall til héraðsins í sunnanverðum Kákakusfjöllum. Uppreisnarmenn af armenskum ættum hafa ráðið þar ríkjum frá því að borgarastríði lauk þar árið 1994 en alþjóðsamfélagið viðurkennir yfirráð Asera yfir því. Héraðið er um fimmtíu kílómetrum frá landamærum Aserbaídsjan að Armeníu.

AP-fréttastofan segir ekki ljóst hvert tilefni átakanna í morgun voru. Herir ríkjanna tveggja beittu loft- og stórskotaliðsárásum. Aserar kenna Armenum um upphafið og segjast hafa brugðist við sprengikúlum sem var skotið frá Armeníu, að því er segir í frétt breska ríkisútvarpsins BBC.

Armensk yfirvöld fullyrða að kona og barn hafi fallið í sprengikúluregni Asera og að armenski herinn hafi skotið niður tvær aserskar herþyrlur og þrjá skriðreka. Því hafna stjórnvöld í Aserbaídsjan sem halda því fram að mannfall hafi orðið í her landsins.

Ilham Aliyev, forseti Aserbaídsjan, sagði í sjónvarpsávarpi að mannfall hafi verið bæði á meðal hersins og óbreyttra borgarar í sprengjuárásum Armena. Fullyrti hann að herinn hefði grandað mörgum hernaðareiningum andstæðingsins.

Sergei Lavrov, utanríkisráðherra Rússlands, er sagður í sambandi við bæði ríki til að fá þau til að slíðra vopnin og hefja viðræður. Bæði Armenía og Aserbaídsjan voru hluti af Sovétríkjunum sálugu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×