Lífið

Jón Daði styrkir Ljósið fyrir móður sína og gefur treyju

Sylvía Rut Sigfúsdóttir skrifar
Ingibjörg Erna Sveinsdóttir móðir Jóns Daða Böðvarssonar hefur sótt endurhæfingu í Ljósið vegna krabbameinsmeðferðar.
Ingibjörg Erna Sveinsdóttir móðir Jóns Daða Böðvarssonar hefur sótt endurhæfingu í Ljósið vegna krabbameinsmeðferðar. Aðsendar myndir

Knattspyrnumaðurinn Jón Daði Böðvarsson hefur sett af stað góðgerðarlottó á landsliðstreyjunni sem hann spilaði í þegar Ísland keppti við Frakkland þann 19. október á síðasta ári. Miðinn í lottóinu kostar 1.000 krónur og rennur öll upphæðin sem safnast í starf Ljóssins, endurhæfingar- og stuðningsmiðstöðvar fyrir krabbameinsgreinda. Dregið verður 12. október. 

Jón Daði er atvinnumaður í knattspyrnu og hefur spilað 50 leiki með landsliðinu og spilað með Selfossi, Víkingi, Kaiserslautern, Wolves, Reading og nú Millwall FC í London.

„Hann þekkir persónulega þjónustu Ljóssins en mamma hans, Ingibjörg Erna Sveinsdóttir, hefur sótt endurhæfingu í Ljósið samhliða krabbameinsmeðferðum. Í upphafi þessa árs sagði Jón við mömmu sína að hann vildi að Ljósið myndi fá treyju til að bjóða upp og vill hann með þessu framlagi gefa til baka til starfseminnar,“ segir í tilkynningu frá Ljósinu.

Jón Daði og Ingibjörg Erna á HM í Rússlandi árið 2018.Mynd úr einkasafni

„Við erum ótrúlega snortin og stolt að Jón Daði vilji styðja starfsemi Ljóssins með þessu móti. Við í Ljósinu erum svo stolt af landsliðinu okkar því er einstaklega ljúft að vita til þess að þar séum við með stuðningsmenn Ljóssins“ segir Erna Magnúsdóttir forstöðukona Ljóssins.

„Við þökkum Jóni Daða og öllu hans fólki fyrir stuðninginn og vonum að sem flestir reyni á lukkuna í þessu skemmtilega góðgerðarlottói.“

Nánar má lesa um góðgerðarlottóið á vefnum Charity Shirts.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×