Fótbolti

Fjögurra marka sigur í fyrsta El Clásico kvenna

Sindri Sverrisson skrifar
Sænska landsliðskonan Kosovare Asllani, sem var á Íslandi fyrir skömmu, í kröppum dansi gegn Barcelona sem vann Real Madrid 4-0.
Sænska landsliðskonan Kosovare Asllani, sem var á Íslandi fyrir skömmu, í kröppum dansi gegn Barcelona sem vann Real Madrid 4-0. vísir/getty

Barcelona og Real Madrid mættust í fyrsta sinn í knattspyrnu kvenna í gær og fór Barcelona með öruggan sigur af hólmi, 4-0.

Sænsku landsliðskonurnar Kosovare Asllani og Sofia Jacobsson, sem mættu Íslandi í síðasta mánuði og mæta Íslandi sjálfsagt aftur í Gautaborg 27. október, léku með Real í gær. Það var hins vegar Barcelona sem hafði yfirburði í leiknum og óð í færum.

Patri Guijarro skoraði fyrsta markið á 19. mínútu, næsta mark var klaufalegt sjálfsmark á 55. mínútu, og þær Lieke Martens og Alexia Putellas skoruðu svo tvö mörk til viðbótar. Mörkin má sjá hér að neðan.

Barcelona er eitt af stofnliðum spænsku kvennadeildarinnar frá árinu 1988. Þá naut liðið stuðnings FC Barcelona, félagsins sem er með lið í fótbolta, handbolta, körfubolta og fleiri greinum, en hefur frá árinu 2001 verið hluti af félaginu.

Real Madrid leikur hins vegar núna í fyrsta sinn í fótbolta kvenna, eftir að hafa tekið yfir félagið Club Deportivo TACÓN. Leikur Real og Barcelona í gær var í fyrstu umferð nýrrar leiktíðar á Spáni.

Uppgangur hefur verið í knattspyrnu kvenna á Spáni síðasta áratuginn en spænska landsliðið er í 13. sæti á heimslista FIFA og spænsk lið hafa náð góðum árangri í Meistaradeildinni á allra síðustu árum. Atlético Madrid og Barcelona mættust til að mynda í 8-liða úrslitum keppninnar í ár, og Barcelona féll úr leik í undanúrslitum með 1-0 tapi gegn Wolfsburg. Barcelona komst í úrslitaleikinn í fyrra.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×