Barcelona og Real Madrid mættust í fyrsta sinn í knattspyrnu kvenna í gær og fór Barcelona með öruggan sigur af hólmi, 4-0.
Sænsku landsliðskonurnar Kosovare Asllani og Sofia Jacobsson, sem mættu Íslandi í síðasta mánuði og mæta Íslandi sjálfsagt aftur í Gautaborg 27. október, léku með Real í gær. Það var hins vegar Barcelona sem hafði yfirburði í leiknum og óð í færum.
Patri Guijarro skoraði fyrsta markið á 19. mínútu, næsta mark var klaufalegt sjálfsmark á 55. mínútu, og þær Lieke Martens og Alexia Putellas skoruðu svo tvö mörk til viðbótar. Mörkin má sjá hér að neðan.
BON DIA!
— FC Barcelona Femení (@FCBfemeni) October 5, 2020
Revivim el primer #ElClásico
@patri8guijarro (18 )
Misa (pp) (55 )
@liekemartens1 (66 )
alexiaps94 (75 ) pic.twitter.com/7NwyYhPbNa
Barcelona er eitt af stofnliðum spænsku kvennadeildarinnar frá árinu 1988. Þá naut liðið stuðnings FC Barcelona, félagsins sem er með lið í fótbolta, handbolta, körfubolta og fleiri greinum, en hefur frá árinu 2001 verið hluti af félaginu.
Real Madrid leikur hins vegar núna í fyrsta sinn í fótbolta kvenna, eftir að hafa tekið yfir félagið Club Deportivo TACÓN. Leikur Real og Barcelona í gær var í fyrstu umferð nýrrar leiktíðar á Spáni.
Uppgangur hefur verið í knattspyrnu kvenna á Spáni síðasta áratuginn en spænska landsliðið er í 13. sæti á heimslista FIFA og spænsk lið hafa náð góðum árangri í Meistaradeildinni á allra síðustu árum. Atlético Madrid og Barcelona mættust til að mynda í 8-liða úrslitum keppninnar í ár, og Barcelona féll úr leik í undanúrslitum með 1-0 tapi gegn Wolfsburg. Barcelona komst í úrslitaleikinn í fyrra.