Fréttatími Stöðvar 2 verður sendur út klukkan 18 í kvöld, eða hálftíma fyrr en venjulega, vegna landsleiks Íslands og Belgíu í knattspyrnu. Landsleikurinn hefst klukkan 18:45, verður í opinni dagskrá á Stöð 2. Útsending hefst 18:30 eða strax að loknum fréttum og íþróttum.
Guðmundur Benediktsson lýsir leiknum.
Vegleg upphitun verður fyrir leikinn á Stöð 2 Sport frá klukkan 17:45 þar sem Kjartan Atli Kjartansson fær til sín sérfræðinga fyrir leikinn. Bjarni Guðjónsson, aðstoðarþjálfari karlaliðs KR, og Davíð Þór Viðarsson, fyrrverandi leikmaður FH, spá í spilin.
Davíð Þór er bróðir Arnars Þórs Viðarssonar sem stýrir landsliðinu í kvöld en starfslið KSÍ er sem kunnugt er í sóttkví. Ríkharð Óskar Guðnason og Hjörvar Hafliðason verða á hlaupabrautinni fyrir og eftir leik.
Hægt er að horfa á leikinn á heimasíðu Stöðvar 2. Smellið hér. Áskrifendur velja Stöð 2 Sport en aðrir geta horft á leikinn á Stöð 2 Sport kynning.
Þá verður að sjálfsögðu ítarleg textalýsing frá leiknum á Vísi.
Mikil forföll eru í íslenska liðinu því sex lykilmenn verða ekki til taks í kvöld af ýmsum ástæðum. Ísland á enn eftir að næla sér í stig í sjö leikjum í Þjóðadeildinni. Þeir hafa allir tapast og markatalan er 2-22. Ekkert lið hefur fengið á sig fleiri mörk. Hafa verður í huga að Ísland spilar í A-flokki.
Belgar eru besta fótboltalandslið í heimi samkvæmt styrkleikalista FIFA. Þeir lögðu okkar menn að velli 6-1 í fyrri leiknum.