Tveggja metra reglan verður innleidd á öllu landinu á ný þegar ný reglugerð heilbrigðisráðherra um kórónuveiruaðgerðir tekur gildi í næstu viku. Þetta sagði Guðmundur Ingi Guðbrandsson starfandi heilbrigðisráðherra í samtali við fréttastofu að loknum ríkisstjórnarfundi rétt í þessu.
Tveggja metra fjarlægðarmörk eru nú aðeins í gildi á höfuðborgarsvæðinu, samkvæmt reglugerð ráðherra sem tók gildi í byrjun október. Annars staðar á landinu hafa fjarlægðarmörk miðast við einn metra. Gert er ráð fyrir að breytingin taki gildi frá og með næsta þriðjudegi, 20. október, og gildi í tvær til þrjár vikur.
Guðmundur fór yfir breytingarnar í viðtali við fréttastofu í hádeginu.
Guðmundur segir að áframhaldandi aðgerðir verði í grundvallaratriðum þær sömu og verið hafa í gildi síðustu vikur. Þó verði sömu reglur um sviðslistir takmarkaðar á sama hátt um land allt.
Jafnframt verði þau tilmæli sem gilt hafa um íþróttaiðkun gerð að reglum. Þannig muni sömu reglur gilda um íþróttastarf bæði innan- og utandyra. Núverandi reglur kveða á um að íþróttir og líkamsrækt innandyra sé óheimil á höfuðborgarsvæðinu.
Reglur um opnunartíma veitingastaða verða óbreyttar en þeim er nú gert að loka klukkan 21 á kvöldin á höfuðborgarsvæðinu og klukkan 23 utan þess. Ekki verða heldur gerðar breytingar á reglum um skólahald. Áfram verða í gildi tilmæli um að fólk haldi ferðalögum sínum til og frá höfuðborginni í lágmarki.
Guðmundur segir að ríkisstjórnin hafi verið sammála um aðgerðirnar, sem séu í samræmi við tillögur sem sóttvarnalæknir skilaði til ráðherra í gær. Guðmundur á von á því að hægt verði að útlista aðgerðirnar endanlega á morgun.
Fréttin hefur verið uppfærð.