Verkamannaflokkur Jacindu Ardern, forsætisráðherra Nýja Sjálands, fór með yfirburðasigur í þingkosningum sem fram fóru þar í landi í nótt. Nú þegar stór hluti atkvæða hefur verið talinn hlýtur flokkur Ardern um 49% atkvæða. Það tryggir flokknum 64 þingsæti sem ætti að duga til að mynda hreinan meirihluta í nýsjálenska þinginu. Þetta hefur engum stjórnmálaflokki tekist þar í landi síðan nýtt kosningakerfi var tekið í gagnið árið 1996.
Búist var við harðri baráttu milli Verkamannaflokks Ardern og Íhaldsmanna í Þjóðarflokknum. Skoðanakannanir í aðdraganda kosninganna bentu þó til þess að kjósendur á Nýja Sjálandi myndu veita Ardern, sem nýtur töluverðra vinsælda, umboð til að stýra landinu næsta kjörtímabilið og sú varð raunin.
Þjóðarflokkurinn hlýtur 27% af töldum atkvæðum og hefur játað ósigur í kosningunum. Kosningarnar áttu upprunalega að fara fram í september en var frestað um mánuð vegna kórónuveirufaraldursins.
Kjörstaðir voru opnaðir klukkan níu að morgni að staðartíma og lokuðu klukkan sjö að kvöldi, en Nýja Sjáland er ellefu klukkustundum á undan íslensku klukkunni. Yfir milljón kjósendur höfðu þegar greitt atkvæði utan kjörfundar en utankjörfundaratkvæðagreiðsla hófst þann 3. október.