Skoðun

Vinnu­vernd í brenni­depli

Drífa Snædal skrifar

Rafrænt þing ASÍ var haldið á miðvikudaginn þar sem stjórnarkjör fór fram og tvær ályktanir samþykktar. Ég vil byrja á því að þakka það traust sem mér er sýnt að leiða verkalýðshreyfinguna áfram næstu tvö árin og hlakka til samstarfsins við nýja miðstjórn ASÍ. Þá var varaforsetum fjölgað og eiga nú þrjár megin stoðir í hreyfingunni fulltrúa í varaforsetateyminu: Verkafólk, iðnaðarmenn og verslunarfólk. Forystuna skipar fólk með reynslu og því er ekkert að vanbúnaði að halda ótrauð áfram í þeim stóru verkefnum sem bíða.

Að innanbúðarmálum slepptum þá urðum við fyrir sorglegri áminningu í vikunni um mikilvægi vinnuverndar. Það var eitt af stærstu málum verkalýðshreyfingarinnar fyrr á tímum og er enn um víða veröld: Krafan um að vera örugg í vinnunni og koma örugg heim! Við þurfum greinilega að gefa í og til dæmis gera ákveðnum útgerðum grein fyrir því að heilsa og velferð starfsfólks á að vera í fyrirrúmi. Árangur sjómanna síðustu áratugi í slysavörnum er þeim til mikils sóma og það er ömurlegt að þurfa að heyja nú baráttu fyrir lágmarks sóttvörnum um borð í skipum. Krafan er augljóslega að þar til bær yfirvöld rannsaki hópsmitið um borð í Júlíusi Geirmundssyni og eftir atvikum dragi útgerðina til ábyrgðar fyrir að stofna heilsu sjómanna í hættu.

Sem betur fer eru það sjaldgæfar fréttir að fólk látist við vinnu sína hér á landi en í gær varð banaslys í malarnámu við Lambafell þegar jarðýta féll fram af fjallsbrún. Ég votta aðstandendum mína dýpstu samúð, það á enginn að þurfa að upplifa slíkt.

Baráttan fyrir vinnuvernd er stöðug og brýn!

Njótið helgarinnar, Drífa.

Höfundur er forseti ASÍ.




Skoðun

Skoðun

Börnin okkar

Halla Karen Kristjánsdóttir,Anna Sigríður Guðnadóttir,Valdimar Birgisson skrifar

Sjá meira


×