Fótbolti

Þjálfari Ísaks segir hann besta leik­mann sænsku deildarinnar í langan tíma

Runólfur Trausti Þórhallsson og Smári Jökull Jónsson skrifa
Ísak Bergmann hefur gert það gott í Svíþjóð undanfarna mánuði.
Ísak Bergmann hefur gert það gott í Svíþjóð undanfarna mánuði. SVT

Jens Gustafsson, þjálfari Norrköping, mætti í viðtal eftir 2-2 jafntefli liðs síns gegn AIK í sænsku úrvalsdeildinni fyrr í kvöld. Ræddi hann þar meðal annars hinn unga og efnilega Ísak Bergmann Jóhannesson. 

Sagði hann að Ísak Bergmann væri besti leikmaður sænsku úrvalsdeildarinanr síðustu ár.

Hinn 17 ára gamli Ísak Bergmann er lykilmaður í liði Norrköping sem situr í 2. sæti sænsku úrvalsdeildarinnar þrátt fyrir ungan aldur. Þá er hann orðinn mikilvægur hluti af U21 árs landsliði Íslands.

„Ég myndi segja að það séu forréttindi að vinna með honum, það er algjörlega frábært. Hann er leikmaður sem kennir okkur þjálfurum hvað maður kemst langt með því að leggja meira á sig en við jöfum nokkurn tímann séð. Ég held að það smiti út frá sér í hópinn. Við njótum þess að vinna með honum á hverjum degi,“ sagði Gustafsson er hann var spurður út í Ísak Bergmann að leik loknum.

Var Jens einnig spurður hvort Ísak sé sá besti sem hann hefur þjálfað, með mesta hæfileika.

„Án vafa. Hann ber höfuð og herðar yfir aðra leikmenn. Það eru leikmenn sem eru fljótari, sterkari og svo framvegis en það er þessi hæfileiki hans; Hvað hann leggur hart að sér frá morgni til kvölds. Þar er enginn sem kemst með tærnar þar sem hann hefur hælana.“

Að lokum var spurt hvort Ísak sé besti leikmaðurinn sem hefur spilað í Allsvenskan [sænsku úrvalsdeildinni] í langan tíma.

„Já, það held ég.“

Í upphafi viðtalsins var meðal annars minnst á það að Liverpool hefði sent mann á leik kvöldsins til að fylgjast með Ísaki. Er Liverpool þar með orðið eitt af fjölmörgum stórliðum Evrópum sem eru að fylgjast með þessum unga og efnilega leikmanni.


Tengdar fréttir

Ísak Bergmann undir smásjá Juventus

Ítalska stórliðið Juventus fylgdist með Ísaki Bergmanni Jóhannessyni er Norrköping lagði Kalmar af velli í sænsku úrvalsdeildinni í dag. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×