Víðir Reynisson yfirlögregluþjónn minnir á að tilmæli til landsmanna um að vera ekki á flakki á milli landshluta gildi enn og eigi auðvitað við um rjúpnaskyttur líka. Rjúpnaveiðitímabilið hefst 1. nóvember og stendur út mánuðinn.
Almannavarnir á Austurlandi hafa biðlað til skotveiðimanna að skjóta í sinni heimabyggð og leggjast ekki í ferðir á milli landshluta í ljósi kórónuveirufaraldursins. Landshlutinn er í raun sá eini sem hefur ekki fundið fyrir yfirstandandi kórónuveirufaraldsbylgju.
Í ár eru veiðimenn hvattir til að gæta hófs í veiðum og að fylgja sóttvarnarreglum auk þess sem þeir fari að tilmælum lögreglu eða aðgerðarstjórna almannavarnanefnda í hverjum landshluta fyrir sig.
Víðir Reynisson yfirlögregluþjónn segir margar fyrirspurnir hafa komið undanfarið varðandi rjúpnaveiði. Ekki liggi fyrir útfærsla er varðar rjúpnaveiði. Þeir Þórólfur Guðnason sóttvarnalækni boðuðuð skýrar reglur sem vonandi tækju gildi sem fyrst. Ráðherra talaði í gær um að nýjar reglur tækju gildi 3. nóvember, þegar gildistími núverandi reglna á höfuðborgarsvæðinu rennur út.
Víðir minnti þó á að í núverandi tilmælum sóttvarnalæknis sé fólk beðið um að vera ekki á flakki milli landshluta að óþörfu. Rjúpnaveiði sé að mörgu leyti Covid-væn enda gott bil á milli manns.
Hins vegar snúi áhyggjurnar að ferðalögunum og snertiflötum gesta við heimafólk.
Rjúpnaveiði sé líklega enn eitt atriðið sem kannski verði öðruvísi árið 2020.