Fótbolti

Sjáðu vítin þrjú sem Real Madrid fékk á sig og skrautlegt sjálfsmark Varane

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Jesús Gil Manzano dæmir þriðju vítaspyrnuna á Real Madrid gegn Valencia í spænsku úrvalsdeildinni í gær eftir að hafa kíkt á VAR-skjáinn á hliðarlínunni.
Jesús Gil Manzano dæmir þriðju vítaspyrnuna á Real Madrid gegn Valencia í spænsku úrvalsdeildinni í gær eftir að hafa kíkt á VAR-skjáinn á hliðarlínunni. getty/Angel Martinez

Allt gekk á afturfótunum hjá Real Madrid þegar Spánarmeistararnir töpuðu, 4-1, fyrir Valencia á Mestalla í gær.

Carlos Soler skoraði þrennu fyrir Valencia en öll mörkin komu af vítapunktinum. Þá gerði Raphaël Varane, varnarmaður Real Madrid, afar klaufalegt sjálfsmark.

Leikurinn byrjaði reyndar vel fyrir Real Madrid en Karim Benzema kom meisturum yfir með skoti fyrir utan vítateig á 23. mínútu.

Sex mínútum síðar fékk Valencia fyrsta vítið sitt eftir að boltinn fór í hönd Lucas Vázquez innan vítateigs.

Thibaut Courtois varði víti Soler, hann tók frákastið, skaut í stöng og Yunus Musah, Bandaríkjamaðurinn ungi, skoraði svo. Hins vegar þurfti að endurtaka spyrnuna þar sem Musah var kominn inn í vítateiginn þegar Soler sparkaði í boltann. Soler fór aftur á punktinn og skoraði að þessu sinni.

Á markamínútunni svokölluðu, þeirri fertugustuogþriðju, skoraði Varane afar slysalegt sjálfsmark og kom Valencia yfir, 2-1.

Á 51. mínútunni fengu heimamenn annað víti eftir að Marcelo braut á Maxi Gómez innan teigs. Soler skoraði sitt annað mark úr vítinu.

Aðeins átta mínútum síðar fékk Sergio Ramos, fyrirliði Real Madrid, boltann í höndina innan teigs og eftir að hafa skoðað atvikið á myndbandi dæmdi Jesús Gil Manzano þriðja vítið. Soler fór enn einu sinni á punktinn og skoraði sitt þriðja mark og fjórða mark Valencia.

Real Madrid er í 4. sæti spænsku úrvalsdeildarinnar með sextán stig, fjórum stigum á eftir toppliði Real Sociedad. Madrídingar eiga reyndar leik til góða á Baskana. Valencia er í 9. sæti deildarinnar með ellefu stig.

Klippa: Valencia 4-1 Real Madrid

Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×