Bandaríski heimsmeistarinn Megan Rapinoe hefur gagnrýnt Manchester United fyrir að hafa ekki fyrir löngu sett kvennalið á laggirnar.
United stofnaði ekki kvennalið fyrr en 2018. Uppgangur þess hefur verið hraður og United er nú á toppi ensku ofurdeildarinnar. United hefur náð í sterka leikmenn, m.a. samherja Rapinoes í bandaríska landsliðinu, Tobin Heath og Christen Press.
„Ég held að kvennafótbolti í Englandi sé eins og í Bandaríkjunum. Hann er langt á eftir vegna þess hversu lítið fjármagn hefur verið lagt í hann,“ sagði Rapinoe.
„Árið er 2020. Hversu lengi hefur enska úrvalsdeildin verið til? Og það er fyrst núna sem félag eins og Manchester United leggur metnað og fjármagn í að vera með kvennalið. Í hreinskilni sagt er þetta svívirðilegt.“
Rapinoe var markahæst og valinn besti leikmaður mótsins þegar Bandaríkin urðu heimsmeistarar í fyrra. Í kjölfarið fékk hún svo Gullboltann.