Erlent

Einn nánasti sam­starfs­maður John­sons hættir

Atli Ísleifsson skrifar
Lee Cain mun yfirgefa Downing stræti 10 í næsta mánuði.
Lee Cain mun yfirgefa Downing stræti 10 í næsta mánuði. Getty

Lee Cain, samskiptastjóri og einn nánasti samstarfsmaður breska forsætisráðherrans Boris Johnson, hefur sagt af sér embætti. Fréttir hafa að undanförnu borist um árekstra innan Íhaldsflokksins vegna stöðu Cain. 

BBC segir frá því að Cain muni láta af störfum í næsta mánuði, þrátt fyrir að hafa áður fengið boð um að gerast nýr starfsmannastjóri forsætisráðherrans. Cain hefur starfað með Johnson nú í nokkur ár.

Fréttir um að Cain hafi verið boðið starf starfsmannastjóra eiga að sögn fréttaskýranda BBC að hafa leitt til mikillar óánægju í röðum fjölda þingmanna og ráðherra Íhaldsflokksins.

Fréttirnar um yfirvofandi brotthvarf Cain hafa nú ýtt undir vangaveltur um framtíð Dominic Cummings, æðsta ráðgjafa Johnsons, en í frétt breska ríkisútvarpsins segir þó að þau svör hafi fengist að Cummings muni ekki hætta.

Cummings og Cain hafa lengi starfað náið saman, meðal annars í herferð útgöngusinna fyrir Brexit-atkvæðagreiðsluna 2016.

Búist er við að James Slack, helsti talsmaður Johnsons, muni taka við starfi Cain.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×