Erlent

Tak­markanir nauð­syn­legar svo sjúkra­húsin ráði við far­aldurinn

Sylvía Hall skrifar
Michael Gove segir ekki mögulegt að slaka á takmörkunum.
Michael Gove segir ekki mögulegt að slaka á takmörkunum. Getty/Leon Neal

Breski ráðherrann Michael Gove hefur varað við því að án áframhaldandi takmarkana gæti álagið á sjúkrahús landsins orðið þeim ofviða. Núverandi takmarkanir eru í gildi til 2. desember, en hertar svæðisbundnar aðgerðir taka þá gildi sem hugnast ekki öllum þingmönnum Íhaldsflokksins.

Aðgerðir á landsvísu tóku síðast gildi þann 5. nóvember síðastliðinn, og sagði Boris Johnson forsætisráðherra það vera gert til þess að afstýra stórslysi í heilbrigðiskerfinu. Verslunum, líkamsræktarstöðvum, börum og veitingastöðum var lokað, flestar samkomur voru bannaðar en skólastarf hélt áfram.

Þær svæðisbundnu aðgerðir sem taka við um mánaðamótin skiptast í þrjú þrep eftir stöðu faraldursins. Þau svæði þar sem faraldurinn er í hvað mestum vexti þurfa að búa við mestu takmarkanirnar, en þar er miðað við sex manna samkomubann á opinberum svæðum og veitingastöðum gert að loka nema fyrir heimsendingar eða sóttan mat.

Þá er fólk ráðið frá ferðalögum til og frá svæðinu og fólk sem deilir ekki heimili má hvorki hittast innan né utandyra samkvæmt breska ríkisútvarpinu.

Þau svæði með „miðlungs“ áhættumat, sem er lægsta þrepið, búa við þónokkuð minni hömlur en þar er þó einnig sex manna samkomubann. Veitingastaðir og öldurhús mega hafa opið til klukkan 23 en fólk er hvatt til þess að takmarka ferðalög og vinna heiman frá sér. Þá eru áhorfendur leyfðir á íþróttaviðburðum og tónleikum á þeim svæðum, en þó með takmörkunum.

Faraldurinn í Bretlandi er á niðurleið en þó er staðan ekki góð. Síðasta sólarhringinn greindist 15.871 með kórónuveirusmit og 479 létust. Alls hafa því rétt rúmlega 58 þúsund látið lífið af völdum veirunnar frá því að faraldurinn hófst.


Tengdar fréttir

Slaka á sóttvörnum yfir blájólin með „jólakúlum“

Yfirvöld í Bretlandi hafa tilkynnt að slakað verður á samkomutakmörkunum og sóttvarnarráðstöfunum yfir blájólin þar í landi. Ferðatakmörkunum verður aflétt og meðlimir allt að þriggja heimila mega koma saman.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×