Orustuhóll við hringveginn austan Kirkjubæjarklausturs er helsta kennileiti byggðar sem á engan sinn líka á Íslandi. Hún varð nefnilega til vegna eldgoss og það fyrir aðeins um tvöhundruð árum. Fjallað var um Brunasand í fréttum Stöðvar 2 og í þættinum Um land allt.
Hjónin Helgi Björnsson jöklafræðingur og Þóra Ellen Þórhallsdóttur grasafræðingur eiga sitt annað heimili á jörðinni Hruna, sem byggðist fyrst árið 1825.
„Það er eiginlega alveg með ólíkindum að menn skuli hafa stofnað til búsetu hérna bara 40 árum eftir eld,“ segir Þóra Ellen, sem er prófessor í grasafræði við Háskóla Íslands.

Náttúruvísindamennirnir segja að fyrir Skaftárelda árið 1783 hafi þetta svæði verið jökulsandur - í líkingu við Mýrdalssand og Skeiðarársand.
„Það er sem sagt 40 árum eftir að hraunið rennur, þá er orðinn það mikill gróður hérna við jaðarinn – og það eru að koma lindir undan – og allir þessir bæir eru reistir við lindirnar,“ segir Helgi.
Alls urðu ellefu bæir til í þessari nýju sveit, sem hlaut nafnið Brunasandur, og flestir byggðir við hraunjaðarinn.
„Skýringin á því hlýtur eiginlega að vera sú að allt þetta vatn, sem sprettur undan hrauninu, hefur verið volgt fyrstu áratugina.
Það er það, held ég, sem hlýtur að skýra hvað landnám gróðurs er hratt og útbreiðslan mikil,“ segir Þóra Ellen og bendir á að Brunasandur sé að langstærstum hluta algróinn – það sé því ekki réttnefni að kalla hann sand.
Hér má sjá frétt Stöðvar 2: