Þórólfur Guðnason, sóttvarnalæknir, skilaði á sunnudag tillögum sínum að næstu aðgerðum til Svandísar Svavarsdóttur, heilbrigðisráðherra. Hann hefur ekki viljað fara út í það í hverju tillögurnar felast en sagði þó í gær að hann teldi ekki mikið svigrúm til afléttinga í ljósi þróunar faraldursins síðustu daga.
Um miðja síðustu viku hafði Þórólfur skilað öðrum tillögum til ráðherra en þegar smitum fór fjölgandi í síðari hluta vikunnar dró hann þær tillögur til baka og smíðaði nýjar.
Ríkisstjórnin kemur saman til fundar fyrir hádegi eins og venja er á þriðjudagsmorgnum og má gera ráð fyrir að minnisblað sóttvarnalæknis og reglugerð ráðherra verði til umræðu þar.
Núverandi reglugerð um samkomutakmarkanir tók gildi þann 18. nóvember. Hún kveður á um tíu manna samkomubann, tveggja metra fjarlægðarmörk og grímuskyldu þar sem ekki hægt að tryggja tvo metrana, til dæmis í almenningssamgöngum og verslunum.
Þá er íþróttastarf barna á leik- og grunnskólaaldri heimilt en líkamsræktarstöðvar og sundlaugar eru lokaðar. Skemmtistaðir og barir eru einnig lokaðir og þá þurfa veitingastaðir með vínveitingaleyfi að loka klukkan 21.
Starfsemi sem krefst nálægðar og/eða snertingar, til dæmis starfsemi hárgreiðslustofa og nuddara, er heimil að uppfylltri grímuskyldu, tíu manna fjöldatakmörkun viðskiptavina og tveggja metra reglu á milli þeirra.