Fótbolti

Búið að sparka þjálfara Birkis og Hólm­berts hjá Brescia

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Birkir Bjarnason fær ef til vill fleiri tækifæri hjá nýjum þjálfara.
Birkir Bjarnason fær ef til vill fleiri tækifæri hjá nýjum þjálfara. VÍSIR/GETTY

Brescia, lið Birkis Bjarnasonar og Hólmberts Arons Friðjónssonar í ítölsku B-deildinni, hefur ákveðið að reka þjálfara sinn, Diego López. Entist hann aðeins tvö mánuði í starfi.

Úrúgvæinn López tók við starfi þjálfara Brescia fyrir yfirstandi tímabil eftir að liðið féll úr Serie A, ítölsku úrvalsdeildinni, á síðustu leiktíð. Gengi félagsins hefur verið dapurt undanfarið og er liðið sem stendur í 14. sæti deildarinnar eftir þrjá tapleiki í röð.

Er liðið með níu stig að loknum níu leikjum, aðeins tveimur stigum frá fallsæti og fimm stigum frá sæti í umspilinu sem gefa sæti í úrvalsdeildinni á næstu leiktíð.

Það ætti ekki að koma á óvart að López hafi því verið sagt upp störfum í dag þar sem Massimo Cellino, eigandi liðsins, er ekki þekktur fyrir mikla þolinmæði þegar kemur að knattspyrnusjórum.

Hólmbert Aron hefur verið meiddur síðan hann gekk í raðir Brescia og því ekki enn leikið fyrir félagið. Birkir Bjarnason var ekki í náðinni hjá López og hefur aðeins komið við sögu í tveimur af þeim níum leikjum sem félagð hefur leikið til þessa.

Talið er Davide Dionigi, þjálfari Ascoli - sem situr í botnsæti B-deildarinnar, verði næsti þjálfari Brescia.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×