Fótbolti

Katar verður „með“ í undan­keppni HM 2022

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Katar mun halda HM 2022 þar sem sigurvegarinn mun lyfta bikarnum hér að ofan. Mótið hefst í nóvember og endar í desember. 
Katar mun halda HM 2022 þar sem sigurvegarinn mun lyfta bikarnum hér að ofan. Mótið hefst í nóvember og endar í desember.  EPA-EFE/Kurt Schorrer

Katar mun taka þátt í undankeppni HM í knattspyrnu sem fram fer í Katar árið 2022. Þó landið sé staðsett í Asíu mun það taka þátt í undankeppni mótsins í Evrópu.

Gengi Katar í undankeppninni mun þó ekki hafa nein áhrif á þátttökurétt landsins á HM þar sem það fær slíkan rétt sjálfkrafa sem gestgjafi mótsins. Hugmyndin er að Katar komi betur undirbúið inn í mótið eftir leiki gegn evrópskum mótherjum.

Íþróttavefur Independent greindi frá. Þar segir einnig að Katar muni vera sett í einn af þeim riðlum sem innihalda fimm lið. Því geta Katar og Ísland ekki mæst í undankeppninni.

Talið er líklegast að Katar verði sett í A-riðil ásamt Portúgal, Serbíu, Írlandi, Lúxemborg og Aserbaísjan. A,B,C,D og E-riðlar eru allir með fimm liðum en heimildir Independent herma að er nær öruggt að Katar lendi í A-riðli.

Knattspyrnusamband Asíu og Evrópu hafa setið við samningaborðið undanfarið og virðast nú hafa komist að niðurstöðu. Þetta er ekki í fyrsta sinn sem Katar tekur þátt í álfukeppnum sem það er ekki hluti af. Til að mynda tók Katar þátt í Suður-Ameríkukeppninni [Copa America] árið 2019 og verður þar einnig er mótið fer fram á næsta ári.

Stigin sem lið vinna sér inn gegn Katar verða að öllum líkindum ekki talin með í riðlakeppninni og er hugmyndin í stað þess sú að lönd spili „hálfgerðan“ mótsleik frekar en æfingaleik á þeim dögum sem þau eiga ekki leik í undankeppninni.

Leikdagar undankeppninnar – einnig þeir sem innihalda Katar – verða tilkynntir af UEFA síðar í dag.


Tengdar fréttir

Guðni segir að Ís­land stefni á annað efstu sætanna

Guðni Bergsson, formaður KSÍ, segir sambandið og íslenska landsliðið verða að stefna á annað efstu sætanna í undankeppni HM í knattspyrnu. Þetta kom fram í viðtali Guðna við íþróttavef mbl.is fyrr í kvöld.

„Ísland spilar ferskan og hraðan fótbolta“

Joachim Löw, þjálfari þýska karlalandsliðsins í fótbolta, segir að sínir menn séu sigurstranglegastir í J-riðli undankeppni HM 2022. Hann segir þó að ekki megi vanmeta lið Íslands.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×