Framkvæmdir við götuna munu halda áfram í vor og verður Naustin endurgerð milli Tryggvagötu og Geirsgötu þá. Í ár var unnið í áfanganum frá Pósthússtræti að Naustum ásamt Naustunum norðanmegin. Árið 2021 verður sá áfangi kláraður ásamt síðasta áfanganum, Tryggvagötu frá Naustum að Grófinni.
Tryggvagata var í dag malbikuð og verður hún opnuð frá Lækjargötu að Pósthússtræti eftir helgi. Fram kemur í tilkynningu frá Reykjavíkurborg að búið verði þannig um svæðið að allir sem eiga leið um svæðið, hvort sem þeir eru á bílum, hjólum eða gangandi eigi að komast þar um vandræðalaust.
Verkið lengdist eftir að í ljós kom að endurnýja þurfti lagnir og brunna við Bæjartorg og meira var að gera hjá fornleifafræðingum á svæðinu en búist var við. Meðal annars þurfti að endurnýja meira en hundrað ára gamlar lagnir sem voru enn á svæðinu.