Fótbolti

Guð­ný fær nýjan þjálfara eftir að­eins einn leik

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
„Gudny“ er komin með nýjan þjálfara hjá Napoli eftir að hafa leikið aðeins einn leik með liðinu.
„Gudny“ er komin með nýjan þjálfara hjá Napoli eftir að hafa leikið aðeins einn leik með liðinu. Napoli

Napoli, lið Guðnýjar Árnadóttur í ítölsku úrvalsdeildinni, hefur ákveðið að skipta um þjálfara. Ákvörðunin kemur í kjölfar fyrsta leiks Guðnýjar með liðinu.

Guðný Árnadóttir gekk nýverið í raðir AC Milan á Ítalíu frá Val. Mílanó-liðið ákvað þó að lána Guðnýju til Napoli út þetta tímabil en bæði lið leika í ítölsku úrvalsdeildinni.

Guðný lék sinn fyrsta leik fyrir Napoli er liðið tapaði 1-2 á heimavelli fyrir Hellas Verona. Guðný lék allan leikinn í stöðu hægri bakvarðar. Nú degi eftir hennar fyrsta leik hefur verið staðfest að Napoli hafi ákveðið að láta Geppino Marino – þjálfara liðsins – fara.

Samkvæmt ítölskum fjölmiðlum ku Alessandro Pistolesi vera arftaki hans og gæti hann jafnvel skrifað undir hjá Napoli í dag. Hann er gríðarlega reyndur þjálfari og stýrði kvennaliði Empoli í 36 ár hvorki meira né minna.

Hann hætti þar fyrr á þessu ári eftir að hafa stýrt liðinu frá árinu 1986.

Marino hafði stýrt Napoli upp um tvær deildir á tveimur árum en gengið til þessa í ítölsku úrvalsdeildinni hefur ekki verið gott. Liðið er með aðeins eitt stig eftir tíu leiki. Þá hefur liðið aðeins skorað sex mörk en fengið á sig tuttugu.

Það er því ljóst að það verður nóg að gera hjá Guðnýju út þetta tímabil.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×