Hertar aðgerðir tóku gildi á mánudaginn í síðustu viku. Þá giltu þær fyrir sextíu og níu sveitarfélög Danmerkur en í ljósi versnandi stöðu faraldursins munu allir landsmenn þurfa að lúta ströngum sóttvarnareglum.
Í nýjum aðgerðum felst að nemendur í 5-9. bekk grunnskóla verða í fjarnámi sem og framhaldsskólanemendur. Kvikmyndahúsum og líkamsræktarstöðvum verður gert að skella í lás að sinni og veitingamönnum eingöngu heimilt að vera með heimsendingarþjónustu.
Samgönguráðherra Danmerkur, Benny Engelbrecht, greindi frá tíðindunum á Facebook og sagði stöðuna alvarlega. Smithlutfall væri hátt og innlögnum fjölgaði of mikið. Þetta væru sorglegar fréttir en því miður nauðsynlegar aðgerðir.
Hátt í þrjú þúsund manns greindust með kórónuveiruna í Danmörku síðastliðinn sólarhring og þá létust ellefu af völdum hennar í gær.