Kínverskir eigendur West Brom ku hafa verið búnir að ákveða að skipta um stjóra fyrir leikinn á Etihad og skiptu ekki um skoðun þótt nýliðarnir hafi náð í stig. Ilkay Gündogan kom City yfir á 30. mínútu en þrettán mínútum síðar jafnaði Rúben Dias fyrir West Brom með sjálfsmarki.
Mark Hughes, Nigel Pearson og Eddie Howe hafa verið orðaðir við stjórastarfið hjá West Brom en líklegast er að félagið leiti til reynsluboltans Allardyce.
Stóri Sam hefur áður verið fenginn í svipuð verkefni hjá Crystal Palace og Sunderland og hélt báðum liðum í ensku úrvalsdeildinni.
Ef Stóri Sam verður ráðinn til West Brom verður hinn hundtryggi Litli Sam, Sammy Lee, honum líklega til aðstoðar.
Bilic verður væntanlega látinn taka pokann sinn í dag og forráðamenn West Brom vonast til að Stóri Sam stýri liðinu í fyrsta sinn þegar það mætir Aston Villa í grannaslag á sunnudaginn.
West Brom er í nítjánda og næstneðsta sæti ensku úrvalsdeildarinnar með sjö stig.