Í fréttum Stöðvar 2 var aftur fjallað um fjölskylduna sem flutti í vor inn í nýtt hús að Auðnum í Kjálkafirði. Þau eru með þrjú börn, þar af tvö á leik- og grunnskólaaldri, 2ja og 6 ára.
En þá vaknaði spurningin: Hvert áttu börnin að fara í skóla? Það flækir málin að fyrir fjórum árum lokaði bæjarstjórn Vesturbyggðar sveitaskólanum á Birkimel vegna fækkunar barna á Barðaströnd.

„Því var lofað að opna hann aftur þegar tækifæri gæfist til. Nú eru komin tólf börn í sveitina, þrjú á skólaaldri og restin alveg niður í nokkurra daga gamalt. Og það á ekki að gera neitt,“ segir Valgerður Ingvadóttir, sjómaður á Auðshaugi og amma barnanna á Auðnum.
Hún segir að verið sé að aka börnunum yfir stórhættulegar heiðar, til Patreksfjarðar um Kleifaheiði og Raknadalshlíð, þar sem snjóflóð séu tíð.

Vesturbyggð býður foreldrum í sveitunum upp á skólaakstur á Patreksfjörð. Þau á Auðnum sáu hins vegar Þingeyri sem skárri valkost eftir að Dýrafjarðargöng voru opnuð.
„Síðan eru þeir að vinna í því að gera Dynjandisheiðina að alvöru vegi. Og hún á að vera opin núna allan veturinn eða fimm daga í viku,“ segir pabbi barnanna, Símon Kristinn Þorkelsson húsasmiður.

Frá Auðnum að gamla skólahúsinu á Birkimel eru 38 kílómetrar, til Patreksfjarðar 78 kílómetrar en til Þingeyrar 74 kílómetrar.
Valgerður á Auðshaugi, amma barnanna, segir að akstur á Patreksfjörð þýði í reynd þriggja tíma veru barnanna í skólabíl á dag, sem aki börnunum heim á bæi og síðast að Auðnum. Með því að pabbinn aki þeim á Þingeyri séu þetta tveir tímar.

„Þau fara með sín börn á Þingeyri. Það er aðeins styttra. Og svo þegar vegurinn verður orðinn góður yfir Dynjandisheiðina – vonandi 2-3 ár kannski í það – þá verður þetta bara miklu betri leið. Miklu betra að fara þessa leið heldur en vestur eftir,“ segir Valgerður.
Hér má sjá frétt Stöðvar 2:
Hér má sjá frétt frá árinu 2016 um lokun skólans á Barðaströnd:
Einnig var fjallað um byggðina á Barðaströnd og skólann á Birkimel í þættinum Um land allt árið 2014, sem sjá má hér: