Þetta kemur fram á vef Fjarðabyggðar, en á vef Vegagerðarinnar má sjá að veginum hafi verið lokað „vegna náttúruhamfara“.
Hættustig vegna skriðuhættu er áfram í gildi á Seyðisfirði og rýmingarsvæði hefur verið stækkað. Óvissustig er í gildi á Austurlandi.
Frá þessu segir í tilkynningu frá almannavarnadeild ríkislögreglustjóra og lögreglustjóranum á Austurlandi.
„Mikil úrkoma var á Seyðisfirði í gærkvöldi og í nótt og rýmingar því enn í gildi. Í gærkvöldi voru svæði stækkuð þar sem fólk í húsum var beðið um að gæta varúðar. Í nótt féllu tvær skriður úr Nautaklauf þar sem stærsta skriðan á þriðjudag féll.
Fyrri skriðan féll upp úr kl. 1 og önnur stærri skriða féll um tveimur tímum seinna. Sú skriða tók með sér mannlaust timburhús og flutti um 50 m. Það hús var innan svæðis sem hafði verið rýmt. Í kjölfarið var staðan endurmetin og nokkur hús til viðbótar rýmd.
Rýmingar á Seyðisfirði verða áfram í gildi að minnsta kosti þar til á morgun. Gerð hefur verið áætlun um frekari rýmingar og útvíkkun á hættusvæði ef aðstæður versna.
Þá féll skriða á Eskifirði, utan þéttbýlis, [Helgustaðavegur] en ekki er talin ástæða til frekari viðbragða þar að sinni. Áfram er vel er fylgst með aðstæðum.
Ekki er heimilt að fara inn á rýmingarsvæðið á Seyðisfirði eins og sakir standa, en staðan verður endurmetin eftir birtingu.
Appelsínugul úrkomuviðvörun Veðurstofu Íslands fyrir Austurland hefur verið framlengd til klukkan 20:00 í kvöld og þá tekur við gul viðvörun til klukkan 09:00 á laugardagsmorgun,“ segir í tilkynningunni.
Tilkynning frá almannavarnadeild ríkislögreglustjóra og lögreglustjóranum á Austurlandi: Hættustig vegna skriðuhættu...
Posted by Almannavarnadeild ríkislögreglustjóra on Friday, 18 December 2020