Fótbolti

Pele sendi Messi kveðju: Sögur eins og okkar eru sjaldgæfar

Arnar Geir Halldórsson skrifar
Lionel Messi.
Lionel Messi. vísir/Getty

Argentínumaðurinn Lionel Messi og Brasilíumaðurinn Pele deila nú meti sem mætti telja ólíklegt að verði aftur jafnað.

Reyndar má reikna fastlega með að Messi muni eigna sér það einn á allra næstu vikum en mark hans gegn Valencia í spænsku úrvalsdeildinni í gær var mark númer 643 fyrir Barcelona í öllum keppnum.

Hinn áttræði Pele fylgdist greinilega með leik Barcelona í gær því hann sendi kveðju til Messi skömmu eftir að leik lauk og var hún birt á heimasíðu Barcelona í kjölfarið.

„Eins og þú, veit ég hvaða tilfinning það er að elska að vera í sömu treyjunni á hverjum degi. Eins og þú, veit ég að það er ekkert betra en staðurinn þar sem við finnum að við eigum heima.“

„Til hamingju með þetta sögulega met, Messi. En fyrst og fremst, til hamingju með þinn fallega feril hjá Barcelona. Sögur eins og okkar, að elska sitt félag svo lengi, eru því miðar sjaldséðar í fótbolta. Ég dáist að þér,“

Pele lék nær allan sinn feril með Santos í heimalandinu en lauk ferlinum á að spila þrjú tímabil í Bandaríkjunum með liði New York Cosmos.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×