Erlent

Jólasveinninn í bullandi vandræðum yfir Bandaríkjunum

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Jólasveinninn var pikkfastur.
Jólasveinninn var pikkfastur. Mynd/Slökkviliðið í Sacramento.

Óhætt er að segja að jólasveinninn hafi lent í vandræðum yfir Sacramento-borg í Kaliforníu-ríki Bandaríkjanna á dögunum. Slökkviliðsmenn þurftu að koma honnum til bjargar eftir að hann flaug á rafmagnslínur.

Los Angeles Times greinir frá en ef marka má myndbönd frá vettvangi var sleði jólasveinsins í þetta skiptið heldur óhefðbundinn, einhverskonar vélknúinn svifsleði.

Jólasveininn hafði í þetta skiptið ætlað sér að fljúga yfir Rio Linda hverfið í borginni, til þess að dreifa nammi og ýmis konar góðgæti. Það endaði þó ekki betur en svo að jólasveinninn flaug óvart á rafmagnslínur með þeim afleiðingum að fallhlíf sveinka festist.

Jólasveinninn mátti dúsa í rafmagnslínunni í um klukkutíma áður en slökkviliðsmenn mættu á svæðið til þess að koma honum niður.

200 heimili urðu rafmagnslaus á meðan sveinka var komið aftur niður á jörðina en öryggisbelti í svifsleðanum hélt honum föstum uppi, sem varð honum til happs.

Í samtali við Los Angeles Times segir talsmaður slökkviliðsins í Sacramento að raunar sé ótrúlegt að jólasveinninn hafi sloppið ómeiddur frá þessu óhappi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×