Samingur Diego Costa og Atletico Madrid rennur út í sumar en hann er ekki tilbúinn að bíða í þessa sex mánuði. Costa fékk leyfi til að sleppa æfingu í gær svo hann gæti unnið að því að finna lausn á sínum málum.
Spænska útvarpsstöðin Cadena Cope hefur heimildir fyrir því að Diego Costa yrði sektaður um 23 milljónir punda eða 3,9 milljarða ef hann færi síðan á frjálsri sölu til Barcelona, Real Madrid eða Sevilla. Það eru auðvitað engar líkur að það verði af því.
Diego Costa 'to be fined £23m if he joins Barcelona or Real Madrid' https://t.co/esUemMDn1D
— MailOnline Sport (@MailSport) December 29, 2020
Atletico Madrid vill aftur á móti fullvissa sig um að það komi ekki í bakið á félaginu að leyfa Diego Costa að fara á frjálsri sölu frá félaginu.
Það gæti einnig kostað Costa talsverðan pening að semja við nýtt lið í janúar samkvæmt upplýsingum sem útvarpsstöðin hefur yfir höndum.
Costa þarf að borga 4,5 milljónir punda ef hann færi í annað lið í Meistaradeildinni og 2,9 milljónir punda ef hann færi í annnað lið.
Spænskir fjölmiðlar telja það líklegt að Costa losni undan samningi sínum en hann hefur verið mikið meiddur á þessu tímabili og aðeins skorað eitt mark til þessa.
Á sama tíma hafa þeir Luis Suarez og Joao Felix eignað sér framherjastöður liðsins og liðið hefur blómstrað enda á toppi spænsku deildarinnar.
Costa hefur eytt samtals átta árum hjá Atletico en þetta er í þriðja sinn sem hann er hjá félaginu. Hann komst síðast til baka árið 2018 eftir að hafa orðið tvisvar Englandsmeistari með Chelsea.