„Það er spáð kannski einum metra á sekúndu og jafnvel áttleysu annað kvöld og fram eftir nóttu. Það eru kjöraðstæður fyrir mengun að safnast upp. Svo er kalt líka þannig það má búast við hitahvarfi sem leggur svona pottlok yfir svæðið þannig mengun kemst síður í burtu,“ sagði Þorsteinn í kvöldfréttum Stöðvar 2.
Þeir flugeldasalar sem fréttastofa hefur rætt við segja söluna góða og því útlit fyrir að margir ætli að sprengja nýja árið inn. Þorsteinn segir það í takt við það sem hann hefur heyrt, það stefni jafnvel í metsölu.
Íslendingar séu einstaklega skotglaðir.

„Við erum að skjóta upp mjög miklu. Fyrir nokkrum árum vorum við að skjóta svipað mikið og Svíar, og þeir eru tíu milljónir á meðan við erum 360 þúsund. Við erum mjög skotglöð og höfum verið það í gegnum árin.“
Aðspurður hvort þær grímur sem Íslendingar hafa þurft að nota undanfarnar vikur komi að gagni vegna mengunar segir hann þær mögulega gera eitthvað gagn. Það sé þó hægt að finna grímur sem hjálpi meira.
„Ef þú vilt fá grímur sem virkilega hjálpa, þá þarftu að fara í byggingarvöruverslun og kaupa rykgrímur. Helst P3-grímur eins og þær heita, þær ná þessu vel.“
Hann segir best fyrir viðkvæma að halda sig innandyra, loka gluggum og takmarka tíma útivið. „Tíminn skiptir líka máli,“ segir Þorsteinn.