Erlent

Staðfestum smitum fjölgaði um fjórðung á Bretlandi

Samúel Karl Ólason skrifar
Fólki á Bretlandi hefur verið ráðlagt að forðast bari og aðra samkomustaði, draga úr ferðalögum og halda sig heima ef fólk hefur tök á.
Fólki á Bretlandi hefur verið ráðlagt að forðast bari og aðra samkomustaði, draga úr ferðalögum og halda sig heima ef fólk hefur tök á. EPA/NEIL HALL

Staðfestum tilvikum Covid-19, sjúkdómsins sem nýja kórónuveiran veldur, á Bretlandi fjölgaði á síðasta sólarhring um 407 og er nú 1.950. Það er 26 prósenta hækkun. Þá hafa 56 dáið en samkvæmt Sky News mun hærri tala líklegast vera opinberuð seinna í dag.

Ríkisstjórn Bretlands hefur gripið til umfangsmikilla aðgerða. Fólki hefur verið ráðlagt að forðast bari og aðra samkomustaði, draga úr ferðalögum og halda sig heima ef fólk hefur tök á.

Elísabet Bretadrottning hefur fellt niður alla viðburði hennar og ætlar að yfirgefa London. Drottningin mun á næstunni halda til í Windsorkastala, vestur af London. Hin 93 ára gamla Elísabet mun leggja land undir fót á fimmtudaginn og verður hún í Windsor í það minnsta fram yfir páska og það vegna nýju kórónuveirunnar.

Samkvæmt yfirlýsingu frá konungsfjölskyldunni sem Reuters vitnar í var ákvörðunin tekin í samfloti við ríkisstjórnina og heilbrigðisyfirvöld Bretlands.

Ekki hefur verið tekin ákvörðun um það hvort að heimsókn keisara Japan til Bretlands verði frestað eða hætt við hana.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×