Tíu kórónuveirusmit hafa nú verið staðfest í Vestmannaeyjum. Lögreglan þar segir að það eina sem virðist tengja tilfellin saman séu íþróttakappleikir á höfuðborgarsvæðinu sem einstaklingarnir eða fólk þeim tengdir sótti sem áhorfendur eða leikmenn. Íþróttamiðstöðinni hefur verið lokað tímabundið.
Engin augljós innbyrðis tenging er sögð á milli smitanna í Facebook-færslu aðgerðastjórnar lögreglunnar í Vestmannaeyjum í kvöld. Kenningin um tengsl við íþróttakappleiki hefur ekki verið staðfest og segir lögreglan ekki hægt að fullyrða um þann möguleika að svo stöddu.
Ekki er tekið fram í færslunni um hvaða íþróttakappleik eða leiki gæti verið um að ræða. ÍBV keppti gegn Stjörnunni í úrslitaleik bikarkeppni karla í handbolta í þétt setinni Laugardalshöll 7. mars. Allur leikmannahópur Stjörnunnar fór í sóttkví nokkrum dögum síðar eftir að einn úr þjálfarateymi liðsins greindist með kórónuveiruna. Hann var á leiknum gegn ÍBV.
Þrjú ný tilfelli greindust í dag og tengjast þau fyrri staðfestum smitum. Íþróttamiðstöð bæjarins hefur verið lokað tímabundið vegna tengsla við eitt smitanna. Um hundrað manns hafa þurft að fara í sóttkví vegna smitanna tíu en til viðbótar er talsverður fjöldi einnig í sóttkví vegna ferðalaga á áhættusvæðum.
Leikskólanum Sóla hefur verið lokað vegna faraldursins og ákveðið var að halda sjöunda bekk grunnskólans heima í dag vegna tengsla nemenda þar við staðfest smit og óvenjumikilla veikinda í bekknum.
„Sýni voru tekin frá öllum nemendum sem eru með einkenni og niðurstöður sýna sem tekin voru í gær eru neikvæðar. Sýni voru tekin hjá öðrum nemendum með einkenni í árgangnum í dag og er niðurstöðum þeirra að vænta í kvöld og á morgun,“ segir í færslu aðgerðastjórnarinnar.