Persónuvernd hefur fallist á umsókn íslenskrar erfðagreiningar um leyfi fyrir vísindarannsókn tengda COVID 19. Stofnunin afgreiddi umsóknina til vísindasiðanefndar síðdegis í gær.
Í umsögn persónuverndar kemur fram að með vísan til þeirra almennu skilyrða sem gilda um vísindarannsóknir á heilbrigðissviði, að ekki séu gerðar athugasemdir við að nefndin taki umsókn Íslenskrar Erfðagreiningar til efnislegrar afgreiðslu.
Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar, hefur gagnrýnt Persónuvernd harðlega og sakað stofnunina um að draga fæturna við afgreiðslu á umsókn fyrirtækisins um að birta niðurstöður úr skimun fyrirtækisins fyrir kórónuveiru í samfélaginu í vísindagrein.
Helga Þórisdóttir, forstjóri Persónuverndar, segir stofnunina hafa unnið hörðum höndum að umsókninni alla helgina. Ganga hafi þurft úr skugga um að niðurstöðurnar brjóti ekki persónuverndarlög.