Eldur kviknaði í bíl á Miklubraut, skammt frá göngubrúnni á milli Skeifunnar og Sogavegar, um áttaleytið í morgun. Lið frá slökkviliði höfuðborgarsvæðisins var sent á vettvang og slökkti eldinn, af myndum af vettvangi að dæma.
Svartan reyk lagði upp af bílnum, hvítum sendibíl, sem staddur er á akreininni í norður.
Engar upplýsingar fengust um málið hjá slökkviliði höfuðborgarsvæðisins þegar leitað var eftir því nú snemma á níunda tímanum, utan þess að verið væri að sinna útkallinu.
Uppfært klukkan 8:50:
Búið er að slökkva eldinn í bílnum og opna fyrir umferð um Miklubraut á svæðinu, sem lokað var á meðan slökkvilið athafnaði sig á vettvangi. Ökumaður komst sjálfur út úr bílnum og sakaði ekki, samkvæmt upplýsingum frá slökkviliði.
Fréttin hefur verið uppfærð.


