Fjórir voru í gær handteknir um 400 kílómetrum utan Naíróbí, höfuðborgar Keníu, fyrir að brjóta gegn reglum um ferðatakmarkanir.
Borgin er lokuð vegna sóttvarnaráðstafana og er fólki hvorki heimilt að yfirgefa borgina né að koma þangað. Örfáar undantekningar eru þó á þessu og nýtti fólkið sér það.
Fólkið hafði komið fyrir tómri líkkistu um borð í bíl sínum og þóttust vera að fara greftra ástvin. Þau höfðu þegar komist í gegnum nokkrar eftirlitsstöðvar við borgina áður en lögreglumaður stöðvaði þau og opnaði kistuna.
Ökumaðurinn reyndist smitaður af kórónuveirunni og hafa farþegar bílsins verið skikkaðir í sóttkví.
Að sögn þarlendra yfirvalda eru fleiri svipuð brot til skoðunar og hafa aðrir verið handteknir fyrir að múta lögreglu til að komast ferða sinna.
262 tilfelli hafa greinst þar í landi og hafa tólf látist.