Danska úrvalsdeildarfélagið Midtjylland stefnir á að bjóða stuðningsmönnum sínum að horfa á leiki félagsins frá bílastæði vallarins. Þar gæti verið pláss fyrir allt að 10 þúsund stuðningsmenn.
Forráðamenn dönsku úrvalsdeildarinnar vonast til þess að deildin fari aftur af stað um miðjan maí mánuð og ljúki í júlí. Það stefnir hins vegar í að leikirnir fari fram fyrir luktum dyrum og því verða engir stuðningsmenn á leikvöngunum þegar leikirnir fara aftur af stað.
Midtjylland hefur brugðið á það ráð að setja upp risastóra skjái á bílastæðinu fyrir utan heimavöll sinn. Munu þeir hleypa allt að tvö þúsund bílum inn á bílastæðið sem telur tólf þúsund stæði. Ef allt fer að óskum þá gætu þeir hleypt fleiri bílum þegar fram líða stundir.
Midtjylland var á toppi deildarinnar þegar 24 umferðum var lokið með tólf stiga forskot á FC Kaupmannahöfn sem er í öðru sæti með 50 stig.