Ríkisstjórnin mun leggja til auknar fjárveitingar á þessu ári vegna kórónuveirufaraldurins og beinan fjárstuðning við rekstraraðila, samkvæmt dagskrá ríkisstjórnarinnar í morgun.
Ríkisstjórnin samþykkti aðgerðarpakka númer tvö á fundi sínum í morgun. Þeirra og meðal eru frumvörp frá Bjarna Benediktssyni fjármálaráðherra um frekari aðgerðir, að öllum líkindum bandorms frumvarp um breytingar á ýmsum lögum eins og í fyrri aðgerðum stjórnvalda.
Þá samþykkti rikisstjórnin fyrir sitt leyti einnig að leggja fram nýtt frumvarp til fjáraukalaga sem þýðir að stefnt er að auknum útgjöldum ríkissjóðs á þessu ári umfram það sem áður hefur verið ákveðið. Það vekur einnig athygli að eitt frumvarpa fjármálaráðherra er um „fjárstuðning við rekstraraðila vegna heimsfaraldurs kórónuveiru.“ En fjármálaráðherra hefur áður sagt að skoða verði beinan fjárstuðning við fyrirtæki.
Á ríkisstjórnarfundinum í morgun var kynnt uppfærð sviðsmynd um efnahagshorfur sem væntanlega verður einnig kynnt þingflokkum og almenningi á fréttamannafundi leiðtoga stjórnarflokkanna í Safnahúsinu klukkan fjögur.
Félagsmálaráðherra greindi frá aukinni fjárþörf Vinnumálastofnunar á ríkisstjórnarfundinum, ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra kynnti frumvarp um breytingar á lögum um pakkaferðir og samtengda ferðatilhögun og heilbrigðisráðherra og dómsmálaráðherra greindu frá tillögum um ferðatakmarkanir til landsins.
Tillaga heilbrigðisráðherra að auglýsingu um afléttingu á takmörkunum á samkomum og skólahaldi hinn 4. maí var afgreidd í ríkisstjórn og hún kynnti einnig drög að stefnu í endurhæfingu. Frumvarp sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra um Matvælasjóð var afgreitt og menntamálaráðherra kynnti skiptingu fjárveitinga til lista, menningarstarfs og íþrótta.