Fimm stjórnarfrumvörp sem tengjast þeim aðgerðum sem ríkisstjórnin kynnti í gær vegan kórónuveirufaraldurins verða til umræða á Alþingi í dag. Formaður Miðflokksins undrast að þjóðaröryggisráð hafi áhyggjur af upplýsingaóreiðu um þessar mundir.
Stefnt er að því að ljúka fyrstu umræðu um öll frumvörpin á Alþingi í dag og koma þeim til nefnda en lokaafgreiðsla og atkvæðagreiðslur fari fram eftir helgi. Þetta eru frumvörp um fjáraukalög, um fjárstuðning til minni rekstraraðila, frekari aðgerðir til að mæta efnahagslegum áhrifum vegna kórónufaraldursins, um pakkaferðir og samtengda ferðatilhögun og matvælasjóð. Auk þess kemur þingsályktunartillaga frá Loga Einarssyni formanni Samfylkingarinnar um aðgerðir í þágu atvinnulausra til umræðu.
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson formaður Miðflokksins undraðist það í fyrirspurnartíma á Alþingi í morgun að á sama tíma og glímt væri við kórónuveirufaraldurinn þar sem daglegar upplýsingar almannavarna og heilbrigðisyfirvalda væru mjög góðar hefði Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra áhyggjur af upplýsingaóreiðu. Þjóðaröryggisráð Bretlands og annarra ríkja funduðu daglega um faraldurinn en lítið færi fyrir fundum ráðsins hér.
„Mér skilst að íslenska þjóðaröryggisráðið hafi ekki fundað til að ræða málið. En þó ákveðið núna að stofna vinnuhóp til að kortleggja birtingarmyndir og umfang upplýsingaóreiðu í tengslum við Covid19,” sagði Sigmundur Davíð og vildi fá að vita hvað forsætisráðherra væri að leggja til með stofnun nefndar til að fylgjast með umræðu um kórónuveirufaraldurinn.
„Varla á að fara að ritskoða íslenska fjölmiðla. Er þá ætlunin að reyna að fylgjast með Netinu og leiðrétta allt það bull sem kynni að finnast þar? Þetta finnst mér afar sérkennilegt,” sagði formaður Miðflokksins.
Forsætisráðherra sagði þjóðaröryggisráð hafa fundað um kórónuveirufaraldurinn og ekki stæði til að innleiða ritskoðun á íslenskum fjölmiðlum. Upplýsingaóreiða væri til umræðu hjá fjölda þjóða.
„Er eðlilegt að við tökum þátt í því alþjóðlega samtali og kortleggjum hvernig þessu er háttað á Íslandi? Já. Er eðlilegt að það sé gert á vettvangi þjóðaröryggisráðs? Það tel ég vera. Er þetta nýtt umfjöllunarefni? Nei,” sagði Katrín Jakobsdóttir.