Knattspyrnufélögin Valur og Víkingur fá greiðslur frá Knattspyrnusambandi Evrópu, UEFA, fyrr heldur en áætlað var. Þetta kom fram í yfirlýsingu frá sambandinu í dag en mikið af ákvörðunum hafa verið tilkynnar það sem af er degi.
UEFA greiðir venjulega þeim félagsliðum sem eiga landsliðsmenn í undankeppnum og lokamótum sambandsins. Ákveðið hefur verið að greiða liðum vegna þátttöku leikmanna þeirra með landsliðum í undankeppni EM karla fyrr heldur en áætlað var vegna óvissuástandsins í knattspyrnuheiminum sökum kórónufaraldursins.
Alls fá 676 félög frá öllum 55 aðildarþjóðum UEFA greitt, þar á meðal Valur og Víkingur.
The #UEFAExCo today decided to release immediately the club benefit payments related to the clubs contribution to UEFA national team competitions.
— UEFA (@UEFA) April 23, 2020
676 clubs from all 55 member associations will benefit from 70m in payments.
Full statement:
Markvörðurinn Hannes Þór Halldórsson lék átta leiki í undankeppni EM eftir að hann gekk til liðs við Val frá Quarabag í Aserbaídsjan. Þá lék hægri bakvörðurinn Birkir Már Sævarsson, einnig í Val, tvo fyrstu leiki Íslands í undankeppninni ásamt því að vera í landsliðshópi Erik Hamrén og Freys Alexanderssonar í tvö skipti til viðbótar.
Þá lék varnartröllið Kári Árnason sex leiki með landsliðinu eftir að hann gekk í raðir Víkinga frá Genclerbirligi í Tyrklandi síðasta vor. Hann var einnig í hópnum í tveimur leikjum til viðbótar án þess þó að spila.
Alls mun UEFA deila út næstum 68 milljónum evra eða 10,7 milljörðum íslenskra króna. Eftir að umspili um laust sæti á EM lýkur, þar sem Ísland og Rúmenía mætast, verður 2,7 milljónum evra eða 426 milljónum íslenskra króna til viðbótar skipt á milli þeirra félaga sem eiga leikmenn í umspilinu.