Lögregla á höfuðborgarsvæðinu hefur nú til rannsóknar tvær alvarlegar líkamsárásir, eina í Breiðholti síðdegis í gær og aðra sem gerð var í Kópavogi skömmu fyrir miðnætti. Þetta staðfestir Margeir Sveinsson aðstoðaryfirlögregluþjónn miðlægrar rannsóknardeildar.
Alls eru fjórir í haldi vegna málanna, þrír vegna árásarinnar í Kópavogi sem handteknir voru á vettvangi, og einn vegna árásarinnar í Breiðholti. Margeir segir að í báðum tilvikum sé um alvarlegar árásir að ræða en getur ekki veitt frekari upplýsinga um líðan þeirra sem ráðist var á.
Samkvæmt upplýsingum fréttastofu var hnífi beitt í a.m.k. annarri árásinni og þolandi í því tilviki ungur maður.
Málin eru í rannsókn en Margeir segir ekki tímabært að veita upplýsingar um hvort farið verði fram á gæsluvarðhald yfir mönnunum sem nú eru í haldi. Frekari upplýsinga gæti verið að vænta í dag.
Brotaþolar í báðum málum voru fluttir á slysadeild.