Erlent

Lýsti kveðjusímtali við fjölskyldu sína fyrir öndunarvél

Samúel Karl Ólason skrifar
Bretar hafa orðið nokkuð illa úti vegna heimsfaraldurs nýju kórónuveirunnar og hafa rúmlega 28 þúsund dáið, samkvæmt opinberum tölum. Hér má sjá sérstakt Covid-19 sjúkrahús sem reist var í Skotlandi.
Bretar hafa orðið nokkuð illa úti vegna heimsfaraldurs nýju kórónuveirunnar og hafa rúmlega 28 þúsund dáið, samkvæmt opinberum tölum. Hér má sjá sérstakt Covid-19 sjúkrahús sem reist var í Skotlandi. EPA/Robert Perry

Hinn breski Darren Buttrick grátbað hjúkrunarfræðinga og lækna um að láta hann ekki deyja áður en hann náði að tala við fjölskyldu sína. Hann fékk svo korter til að hringja nokkur símtöl áður en hann var færður á gjörgæslu og í öndunarvél vegna veikinda hans af völdum Covid-19.

Buttrick greindist með veiruna þann 11. mars og var hann ekki með neina undirliggjandi heilsukvilla. Hiti hans fór yfir fjörutíu gráður og sagði hann að það að anda væri eins og vera kyrktur. Hann var þó settur í dá og á öndunarvél.

„Ég grét og grátbað læknana og hjúkrunarfræðingana um að láta mig ekki deyja. Ég grátbað,“ sagði Buttrick við Sky News.

Eins og áður segir fékk hann að hringja nokkur símtöl.

„Að þurfa að segja það við Angelu, foreldra mína, bræður, systur, fjölskyldu, vini, að þetta gæti verið síðasta samtal okkar og að ég elskaði þau. Það var mjög erfitt og ég hágrét.“

Einn hjúkrunarfræðingur hét því þó að Buttrick myndi ekki deyja. Hann segir hana hafa horft á hann og sagt að þau myndu bjarga honum. síðan hafi hún sagt honum að telja upp að tíu.

„Ég held ég hafi komist í þrjá og ég hugsaði að mögulega myndi ég aldrei vakna aftur. Þarna gæti ég verið að deyja. Sem betur fer vaknaði ég og náði mér.“

Buttrick hefur náð sér að fullu en hann segist eiga erfitt með að gleyma því sem hann sá á gjörgæslunni. Það hafi verið hræðilegt að sjá allt þetta fólk meðvitundarlaust í öndunarvélum og það muni fylgja honum til æviloka.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×