Viðskipti innlent

Ragn­heiður Elín ráðin fram­kvæmda­stjóri Alor

Atli Ísleifsson skrifar
Ragnheiður Elín Árnadóttir.
Ragnheiður Elín Árnadóttir. Alor

Ragnheiður Elín Árnadóttir, ferrverandi iðnaðar- og viðskiptaráðherra, hefur verið ráðin framkvæmdastjóri nýsköpunarfyrirtækisins Alor ehf.

Í tilkynningu kemur fram að fyrirtækið hafi verið stofnað á síðasta ári og vinni að því að þróa og framleiða umhverfisvænar raforkugeymslur úr áli sem verði nýttar til þess að safna og geyma umfram framleidda raforku og stuðla að betri nýtingu.

Segir að hagnýtingarmöguleikar raforkugeymslna úr áli séu fjölmargir og megi þar nefna að stuðla að samdrætti losunar koltvísýrings í sjávarútvegi, landbúnaði og iðnaði auk þess að tryggja raforku á afskekktum svæðum og á hamfarasvæðum.

„Fyrirtækið er nú þegar í samstarfi við Háskóla Íslands og Albufera Energy Storage á Spáni sem er leiðandi í þróun á álrafhlöðum í Evrópu. Þessu til viðbótar er unnið að samstarfssamningum við fleiri aðila bæði hér á landi og erlendis,“ segir í tilkynningunni.

Haft er eftir Ragnheiði Elínu að hún telji framtíðarmöguleikana mikla og hlakki til að takast á við þau verkefni sem bíði „Það er brýnna en nokkru sinni fyrr að finna lausnir til þess að draga megi úr losun gróðurhúsalofttegunda og þannig stuðla að því að markmið Parísarsamkomulagsins náist, sem og Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna. Ísland hefur tækifæri til þess að verða leiðandi í baráttunni við loftslagsvandann og skapa sér enn frekari sérstöðu á þessu sviði. Með nýjum lausnum má m.a. hraða brýnum orkuskiptum skipaflotans og rafvæðingu hafna. Alor ehf. gegnir þarna lykilhlutverki og er ég full eftirvæntingar að leiða félagið.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×