Þetta kom fram í kvöldfréttum Ríkisútvarpsins. Þar segist Katrín bjartsýn á að frumvarpið verði afgreitt á vorþingi, en það hefst á mánudag.
Frumvarpið sem um ræðir felur í sér fjögur ákvæði sem varða auðlindir í þjóðarein, íslenska tungu, umhverfis- og náttúruvernd og breytingar á þeim kafla stjórnarskrárinnar sem fjallar um forseta og framkvæmdavald.
Katrín segir í samtali við RÚV að hún hafi ekki endilega átt von á því að fullri samstöðu um frumvarpið yrði náð. Hún voni þó að umræðan á Alþingi verði til þess að aukinni samstöðu um málin verði náð.
Katrín sagði í samtali við fréttastofu í nóvember að mikil og vönduð vinna hafi farið fram á kjörtímabilinu vegna fyrirhugaðra stjórnarskrárbreytinga. Undirbúnar hafi verið mjög góðar tillögur að breytingum að hennar mati.
„Næsta skref í þessu máli tel ég vera að ljúka gerð þessara frumvarpa og að þau fái efnislega umræðu á Alþingi fyrir opnum tjöldum og ég mun stuðla að því að svo verði,“ sagði Katrín.