Svona hefst ályktun Blaðamannafélags Íslands, BÍ, vegna fyrirhugaðra breytinga á kvöldfréttum Stöðvar 2.
Tilkynnt var fyrr í vikunni að Sýn hafi ákveðið að frá og með 18. janúar næstkomandi verði kvöldfréttir Stöðvar 2 í lokaðri dagskrá og aðeins aðgengilegar áskrifendum. Blaðamannafélagið segir það þungt áfall fyrir íslenska samfélagsumræðu og áfellisdóm yfir þeim rekstrarskilyrðum sem fyrirtækjum hefur verið búin á markaði.
„Þegar ljósvakinn var frelsaður úr viðjum einokunar árið 1985 var það upphafið að mesta blómatíma í sögu íslenskrar fjölmiðlunar og undirstaða framfara í íslensku samfélagi á svo ótal mörgum sviðum. Núna þegar útsendingar frétta Stöðvar 2 læsast öðrum en áskrifendum er það táknrænn lægsti punktur í samtímasögu íslenskrar fjölmiðlunar og segir ömurlega sögu um stöðuna á þessum markaði,“ segir í ályktun BÍ.
Fram kemur í ályktuninni að samkeppniseftirlitið hafi ítrekað vakið athygli á óeðlilegum skilyrðum sem löggjafinn hafi ákveðið að búa fyrirtækjum á ljósvakamarkaði og bendir á þá ákvörðun sem gerð var árið 2008 um að gera Ríkisútvarpið að opinberu hlutafélagi.
Í ályktun samkeppniseftirlitsins kom meðal annars fram að rekja mætti erfiða stöðu keppinauta RÚV á auglýsingamarkaði „til þeirra ósanngjörnu samkeppnisaðstæðna sem ríkja á umræddum markaði og stafa af lögunum um RÚV og samkeppnishamlandi hegðun fyrirtækisins á auglýsingamarkaði.“
Það sé einnig „veigamikil ástæða þess að ekki eru fleiri öflugar sjónvarpsstöðvar hér á landi en raun ber vitni.“
Í ályktun BÍ segir einnig að með lokun fréttatíma Stöðvar 2 minnki samkeppni á ljósvakamarkaði en samkeppni á því sviði, sem öðrum, sé aflviki gæða. Það sé út af fyrir sig þrekvirki að fréttir Stöðvar 2 hafi verið í opinni dagskrá í 34 ár í samkeppnisumhverfinu sem stöðinni hefur verið búin.
Vísir er í eigu Sýnar hf.